Skúli Halldórsson
Alls liggja tíu bólusettir einstaklingar inni á Landspítala, sökum veikinda af völdum Covid-19 sýkingar. Sjö þeirra hafa fengið örvunarskammt af bóluefni.
Níu til viðbótar liggja inni á spítalanum vegna Covid-19, en þeir eru óbólusettir, eftir því sem ráða má af gögnum frá Landspítalanum.
Þannig hefur um helmingur sjúklinga, sem eru á spítalanum vegna sjúkdómsins, ekki verið bólusettur.
Til samanburðar hafa um 80% landsmanna, 5 ára og eldri, verið bólusett.
Til viðbótar við þessa nítján liggja sjö á spítalanum með kórónuveirusmit. Fimm þeirra liggja ekki inni á spítalanum vegna smitsins beinlínis, samkvæmt upplýsingum frá Landspítala.
Spítalinn getur ekki skorið úr um hvort sjúkrahúslega hinna tveggja sé vegna veirunnar.
Þrír eru á gjörgæsludeild, en þannig hefur stöðunni þar verið háttað frá 25. janúar. Tveir þeirra eru í öndunarvél.
Mest hafa 46 legið inni með kórónuveirusmit á spítalanum á þessu ári, eða þann 16. janúar.
Þeim fækkaði ört næstu daga þar á eftir og voru þannig 33 talsins þann 20. janúar, án þess að hertar takmarkanir ættu þar hlut að máli.
Nú eru þeir 26, eins og fram kom að ofan.
Á sama tíma, eða síðustu tæpar þrjár vikur, hefur greinst slíkur fjöldi kórónuveirusmita hér á landi að hann slær öllu við frá upphafi faraldursins á Íslandi.
1.440 smit greindust á landinu í gær. Þann 14. janúar, þegar ríkisstjórnin kynnti hertar takmarkanir til að takmarka fjölda smita, voru þau 1.149 talsins.
Ólíklegt er, samkvæmt heimildum mbl.is, að einhvers konar afléttingar takmarkana verði kynntar á morgun.