Sú útreið sem starfsfólk Eflingar fékk í fjölmiðlum af hálfu fyrrverandi formanns og framkvæmdastjóra Eflingar eftir starfsmannafund í lok október síðastliðnum, hefur haft alvarleg áhrif á líðan þess. Mikil vinna er framundan við að við að byggja upp öryggi og traust gagnvart stjórnendum og samstarfsfólki.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum vinnustaðagreiningar sem sálfræði- og ráðgjafastofan Líf og sál vann fyrir Eflingu og mbl.is hefur undir höndum. Þar lýsir 90 prósent starfsfólks á skrifstofu Eflingar vanlíðan vegna framkomu fyrrverandi stjórnenda. Skýrslan var kynnt á starfsmannafundi í morgun.
Í niðurstöðum og samantekt skýrslunnar er tekið fram að jákvæð samskipti og almenn kurteisi þurfi á vinnustað til að tryggja jákvætt sálrænt öryggi og góðan starfsanda. Stjórnendur þurfi að vera til fyrirmyndar þar og stíga inn í og leysa samskiptavanda eða leita utanaðkomandi aðstoðar. Fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri hafi hins vegar brugðist þeim skyldum.
„Notaðar voru ógagnlegar og neikvæðar aðferðir til að mæta kvörtunum og vanlíðan starfsfólks. Jók það á vandann og endaði með algjöru rofi á trausti á fundi í okt s.l. og vegna umfjöllunar fyrrum stjórnenda í kjölfar hans,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.
Þá kemur fram að Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, hafi brugðist í hlutverki sínu sem stjórnandi á skrifstofunni. Flestir hafi lýst honum sem hvössum og ósveigjanlegum og nokkrar konur lýstu upplifun sinni af kvenfyrirlitningu. Þá hafi einhverjir upplifað eða orðið vitni að kynbundinni áreitni og mismunun af hálfu Viðars.
Nokkrir töldu einnig, að er fram kemur í skýrslunni, að bæði Viðar og Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, hefðu lagt einhverja á vinnustaðnum í einelti og beitt andlegu ofbeldi með misbeitingu valds og stöðu. Viðar hafi þó verið oftar nefndur í þessu samhengi en gjarnan hafi verið talað um að hann hafi verið í skjóli formanns.
Þetta sé mikið áhyggjuefni, að fram kemur í niðurstöðunum, og sérstaklega alvarlegt þar sem um æðstu stjórnendur á vinnustað sé að ræða og valdaójafnvægið því mikið. Mikilvægt sé að bregðast við með skýru inngripi, athugun og fræðslu.
Þá kemur fram í skýrslunni að ánægja sé með hvernig leyst var úr þeim stjórnunarvanda sem kom upp í október. Flestir lýsa betri líðan en áður og segja hópinn þéttari og sterkari. Jafnframt er ánægja með samskipti við núverandi formann og varaformann. Starfsfólk upplifir að núverandi stjórnendur séu skilningsríkari og njóta þeir meira trausts.
Mikill meirihluti lýsir hins vegar erfiðu ástandi og slæmri líðan misserin á undan vegna stjórnunar vinnustaðarins, álags, skipulagsbreytinga, starfsmannaveltu, verkefnastöðu, óskýrra hlutverka, samskiptaerfiðleika á milli starfsmanna og starfsmanna og stjórnenda. Þá hafi fólk upplifað baktal, hópaskiptingar og einhæfni í verkefnum.
Starfsandinn hafi litast af neikvæðum stjórnunarháttum og voru Sólveig og Viðar nefnd í því samhengi. Margir töluðu um „við-þið viðhorf“ og sögðu ekki hlustað á ábendingar og kvartanir. Illa hafi verið staðið að breytingum sem þó voru þarfar. Þá hafi verið skortur á samtali og upplýsingaflæði til starfsfólks.
„Framganga fyrrum formanns og framkvæmastjóra gagnvart starfshópnum og einangrun þeirra á sinni vegferð varð til að uppúr sauð,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.