Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, segir að ásakanir sem koma fram í vinnustaðgreiningu Lífs og sálar um einelti og kvenfyrirlitningu af minni hálfu, séu ósannar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér fyrir skömmu.
„Hið rétta er að ég axlaði ábyrgð á því hlutverki mínu sem framkvæmdastjóri að gera eðlilegar kröfur til stjórnenda, með hagsmuni starfseminnar og félagsmanna Eflingar í huga. Ég harma það að þessir einstaklingar notfæri sér vanlíðan þeirra sem upplifað hafa raunverulegt einelti og kvenfyrirlitningu til að koma höggi á mig vegna ósættis sem snýst um frammistöðu og vinnubrögð í starfi.“
Í skýrslunni, sem mbl.is hefur greint frá, kemur að Viðar hafi brugðist í hlutverki sínu sem stjórnandi á skrifstofunni. Nokkrar konur hafi lýst upplifun sinni af kvenfyrirlitningu. Þá hafi einhverjir upplifað eða orðið vitni að kynbundinni áreitni og mismunun af hálfu Viðars.
Nokkrir töldu einnig, að er fram kemur í skýrslunni, að bæði Viðar og Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, hafi lagt einhverja á vinnustaðnum í einelti og beitt andlegu ofbeldi með misbeitingu valds og stöðu. Viðar hafi þó verið oftar nefndur í þessu samhengi en gjarnan hafi verið talað um að hann hafi verið í skjóli formanns.
Viðar segir í yfirlýsingu sinni að ásakanirnar megi rekja til þess að hann sagði upp háttsettum stjórnanda hjá félaginu. Mikill skortur hafi verið á samhljómi og samstillingu við stefnu félagsins hafi verið áberandi í störfum stjórnandans.
„Í kjölfar uppsagnarinnar hóf þessi stjórnandi ásakanaherferð á hendur mér, keimlíka þeirri sem aðrir háttsettir stjórnendur hjá félaginu hafa stundað gegn mér og Sólveigu Önnu Jónsdóttur allt frá því við hófum störf hjá Eflingu árið 2018,“ segir Viðar. Áður hafi hann reynt að koma ábendingum til starfsmannsins sem hann virt að vettugi.
Umræddur starfsmaður, sem er kona, hafi í kjölfar uppsagnarinnar sent inn erindi til stjórnar Eflingar þar sem hún hafi krafist þess að fá veglegan starfslokasamning og að Viðari yrði vikið úr starfi.
Þá hafi hún safnað liði fyrrverandi stjórnenda sem ekki höfðu átt samleið með félaginu, til að geta dregið upp þá mynd að annarlegar orsakir væru á brotthvarfi þeirra, enda hafi stjórnendurnar allir verið konur. Þannig hafi hann með óbeinum hætti verið sakaður um kvenfyrirlitningu og fordóma í garð kvenna.