Samkvæmt mælingum heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur var styrkur köfnunarefnisdíoxíðs nokkuð hár í borginni í morgun. Því gætu viðkvæmir hópar fundið fyrir ertingu vegna loftgæða í borginni í dag.
Klukkan 11 var styrkur köfnunarefnisdíoxíðs á Grensásvegi 175,5 míkrógrömm á rúmmetra.
Köfnunarefnisdíoxíðmengun kemur frá útblæstri bifreiða og er mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi.
Að sögn Svövu S. Steinarsdóttur, hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, eru það aðallega viðkvæmir hópar sem geta fundið fyrir ertingu vegna megnunarinnar í dag. Hún segir þó að ef gildi fari hækkandi næsta sólarhringinn gætu fleiri fundið fyrir áhrifum.
„Fyrir okkur sem erum fullfrísk að þá er þetta eins og öll önnur mengun, óæskileg, en það eru þessir viðkvæmu hópar sem við viljum alltaf benda á að vara sig á þessu,“ segir Svava.
Hún segir mestu gildin hafa mælst við Grensásveg og Miklubraut, það sé betra ástand á öðrum stöðum en þegar froststillur eru geta gildin rokið upp.
Nú er hægur vindur og kalt og búist er við svipuðum veðurfarsaðstæðum fram undir kvöld. Líkur eru á köfnunarefnisdíoxíðmengun einkum við umferðargötur núna seinni partinn.
Heilbrigðiseftirlitið hvetur því fólk til að hvíla bílinn, nýta sér umhverfisvænni ferðamáta, eins og almenningssamgöngur, göngur og hjólreiðar og forðast óþarfa ferðir.
Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til.
Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna á loftgæði.is. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík og annars staðar á landinu.