5 ára fangelsi fyrir tvær nauðganir

Landsréttur í Kópavogi.
Landsréttur í Kópavogi. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir 21 árs gömlum karlmanni sem fundinn var sekur um að hafa nauðgað tveimur konum.

Maðurinn, Joshua Ikechukwu Mogbolu, var dæmdur í fimm ára fangelsi í Landsrétti en Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt hann í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í júní á síðasta ári.

Dómur Landsréttar
Joshua var dæmdur annars vegar fyrir að hafa sunnudaginn 1. mars 2020 nauðgað konu tvívegis í kjallaraíbúð sinni, en þangað fóru hann og konan saman af skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur.

Þá var hann dæmdur fyrir að hafa 25. júlí á sama ári nauðgað annarri konu sem hann kynntist á stefnumótaforritinu Tinder. Þau hittust í gleðskap í íbúð vinar hans og síðar um kvöldið nauðgaði Joshua konunni inni á baðherbergi.

Í forsendum héraðsdóms, sem Landsréttur staðfesti, sagði að í báðum málunum hafi Joshua og brotaþolar einir verið til frásagnar um atburðina. Því réðist niðurstaða málsins af mati á trúverðugleika framburðar hvers um sig og hvort sá frumburður samrýmdist öðrum fyrirliggjandi gögnum. Ekkert hafi fram komið í málinu sem þótti varpa rýrð á frásagnir brotaþola sem áttu sér meðal annars stoð í framburði vitna, framlögðum rannsóknargögnum, vottorðum sálfræðinga og skýrslum hjúkrunarfræðinga og lækna. Framburður ákærða var á hinn bóginn metinn ótrúverðugur og misvísandi um mikilsverð atriði. Var framburður brotaþola því lagður til grundvallar við úrlausn málsins og talið sannað og hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök.

Landsréttur dæmdi manninn til að greiða annarri konunni 2,5 milljónir króna í bætur og hinni 2 milljónir króna. Þá var hann dæmdur til að greiða málskostað, tæpar 5,3 milljónir í héraði og 3,2 milljóna kostnað vegna áfrýjunar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert