Alls hafa borist 69 umsóknir um flutning hergagna með íslenskum loftförum frá því að ábyrgð á leyfisveitingum færðist til utanríkisráðuneytisins vorið 2019. Í eitt skipti var um að ræða flutning í íslenskri lofthelgi. Allar umsóknirnar bárust frá flugrekandanum Air Atlanta.
Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um vopnaflutninga.
Þar kemur fram að aðeins einni umsókn um leyfi til hergagnaflutninga hafi verið hafnað, á sama tímabili, á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Ekki fengust tilgreind uppruna- og áfangastaður hergagna í hverri umsókn fyrir sig eða nánari upplýsingar um hergögnin, svo sem framleiðanda þeirra eða magn. Vísar ráðuneytið til upplýsingalaga þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema með samþykki þess sem í hlut á.
Þó kemur fram að upplýsingarnar liggi fyrir hjá ráðuneytinu og í boði sé að kynna þær fyrir utanríkismálanefd Alþingis í trúnaði.