Banaslys varð á Suðurlandsvegi austan við Kirkjubæjarklaustur um kl. 00:40 í nótt þegar flutningabíll lenti út af vegi og valt. Farþegi í bílnum lést en ökumaður er óslasaður.
Ofsaveður var á vettvangi, á tíðum ekki stætt í hviðum og varð tjón á björgunartækjum þegar rúður fuku úr þeim, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Einungis björgunarstörf voru því unnin á vettvangi en hann var síðan yfirgefinn og verður unnið að vettvangsrannsókn í dag eftir því sem veður gengur niður.
Að rannsókninni koma, auk lögreglu á Suðurlandi, tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa og eru þessir aðilar á leið á vettvang til þeirrar vinnu.