Bátaflokkar kallaðir út

Horft yfir Úlfljótsvatn í gær. Bátaflokkar gera sig nú tilbúna …
Horft yfir Úlfljótsvatn í gær. Bátaflokkar gera sig nú tilbúna að leita í Úlfljótsvatni og Þingvallavatni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að kalla út bátahóp á vegum séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og bátahópa frá björgunarsveitum vegna leitar á Úlfljótsvatni og Þingvallavatni. Þetta staðfestir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

„Það er enn fullur þungi í leitinni,“ segir hann og bætir við að öll tæki og tól séu notuð. Þannig hafi bátum verið bætt við núna í morgun sem muni leita vatnið með sérstökum búnaði til að leita í vatni. Auk þess séu björgunarsveitir að leita svæðið á vélsleðum, með drónum, á snjóbílum sem og á fæti. Þá sé von á þyrlum Landhelgisgæslunnar fljótlega.

„Gögnin benda á þetta svæði“

„Það er verið að leita ansi stórt svæði á skipulagðan hátt út frá gögnum um síðustu þekktu staðsetningu flugvélarinnar,“ segir Davíð og bætir við að allar sviðsmyndir komi til greina. „En gögnin benda á þetta svæði,“ segir hann um ástæður þess að horft sé til suðurhluta Þingvallavatns og svæðisins þar í kring.

Björgunarsveitir gera sig tilbúnar til að hefja leit að nýju …
Björgunarsveitir gera sig tilbúnar til að hefja leit að nýju í morgunsárið eftir að flugvél týndist í gær, en fjórir voru um borð. mbl.is/Þorsteinn

Í gær var einnig leitað við Kleifarvatn, en Davíð segir að það hafi viljað þannig til að neyðarboð kom frá öðrum neyðarsendi á þeim tíma. Alveg ljóst sé nú að það hafi ekki verið neyðarsendir þessarar vélar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert