Björgunarsveitarmaður fluttur með þyrlu á spítala

Félagar mannsins hlúðu að manninum þar til þyrlan kom.
Félagar mannsins hlúðu að manninum þar til þyrlan kom. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rétt fyrir hádegi í dag slasaðist björgunarsveitarmaður sem var við leit að flugvélinni sem saknað er. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang og flutti hann til aðhlynningar á sjúkrahúsi.

Maðurinn var á vélsleða með leitarhópi á Lyngdalsheiði þegar hann varð fyrir óhappi og slasaðist, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

„Félagar hans sem voru að leita með honum brugðust hárrétt við, hættu leit og fóru að hlúa að honum og kölluðu eftir aðstoð. Eðli málsins samkvæmt eru mörg hundruð viðbragðsaðilar að vinna í þessu verkefni og þyrlan handan við hornið og hún var fljót að snúa sér að þessu verkefni,“ segir Davíð.

Hann hefur ekki frekari upplýsingar um líðan mannsins, að svo stöddu.

„Hann var slasaður og við viljum hafa varann á. Við leggjum mikið upp úr öryggi okkar fólks á vettvangi en óhöppin geta alltaf gerst en þá búum við svo vel að vera með þaulvant fólk í grennd sem getur brugðist við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert