Umfangsmesta leit síðari ára hófst í gær eftir að ljóst varð að lítillar flugvélar var saknað. Fjórir voru um borð, flugmaður vélarinnar auk þriggja farþega, sem samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru erlendir ferðamenn sem komu hingað til lands á sunnudag í vinnuferð.
Rétt upp úr þrjú í nótt höfðu allir hópar björgunarsveita lokið verkefnum sínum og fóru í hvíld. Því var engin leit framkvæmd eftir klukkan þrjú í nótt en hún hefst aftur um klukkan átta. Þá fara hópar björgunarsveita af stað sem og Landhelgisgæslan.
„Í nótt voru nýir óþreyttir hópar á leiðinni hingað víða af landinu sem verða komnir núna austur fyrir fjall á næstu klukkutímum og taka við nýjum verkefnum og hefja leit aftur klukkan átta,“ sagði Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is, nú í morgunsárið.
Aðspurður sagði Davíð útlit fyrir að tugir björgunarsveitahópa komi að leitinni í dag. Þeir munu halda áfram þar sem frá var horfið í nótt.
Um veðurskilyrðin sagði Davíð:
„Veðurspáin var ágæt ennþá. Það var von á einhverjum smá vindi en það var ekki von á mikilli úrkomu alla vega í dag þannig að skilyrði til leitar ættu að vera alveg ágæt. Það er alla vega það sem menn gera ráð fyrir.“
Þunginn í leitinni verður áfram á svæðinu við Þingvallavatns, á milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatn og á heiðunum í kring.
„Allar upplýsingar sem söfnuðust í gær benda til þess að þungi leitarinnar verði þar í dag,“ sagði Davíð.
Síðast sást til vélarinnar vestur af Úlfljótsvatni klukkan 11.45 fyrir hádegi í gær.
Um sjö hundruð manns voru við leit þegar mest lét í gærkvöldi. „Þetta er með fjölmennari leitum hin síðari ár, ef litið er til þess fjölda björgunarsveitarfólks sem tekur þátt í leitinni og þeirra sem að henni koma. Þannig að það er mikill kraftur settur í leitina,“ sagði Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.
Vélin er fjögurra sæta og af gerðinni Cessna C172. Hefur flugmaðurinn nýtt hana til útsýnisflugs með ferðamenn, eins og raunin var í gær. Var í flugplani hennar gert ráð fyrir tveggja tíma flugi.