Hlé var gert á útsendingu spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, nú fyrir skömmu þar sem Kristjana Arnarsdóttir, spyrill keppninnar, féll í yfirlið.
Að sögn Sævars Helga Bragasonar, eins af dómurum keppninnar, er í góðu lagi með Kristjönu en hún hafði óskað eftir því að hlé væri gert á útsendingu.
Eftir auglýsingahlé tók Sævar Helgi Bragason við sem spyrill.
„Komiði sæl aftur, það er í góðu lagi með Kristjönu, það leið yfir hana þannig hún er í góðu yfirlæti hér baksviðs. Ég hleyp í skarðið,“ sagði Sævar er hlé á útsendingu lauk. Sagði hann þetta vera gott dæmi um að allt geti gerst í beinni útsendingu.
Uppfært 21:51
Í frétt ríkisútvarpsins er greint frá því að Kristjana hafi leitað á slysadeild til skoðunar í öryggisskyni en að henni hafi liðið vel miðað við aðstæður.
Hlé á útsendingunni stóð yfir í sex mínútur.