Fjöldi einkaflugmanna í startholunum

Á fimmta hundrað eru við leit að flugvélinni.
Á fimmta hundrað eru við leit að flugvélinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halldór Kr. Jónsson, gjaldkeri AOPA, félags flugmanna og flugvélaeigenda á Íslandi, segir að fjöldi einkaflugmanna hafi gefið sig fram til að aðstoða við leit að flugvélinni sem nú fer fram við Þingvallavatn.

Flugmaður vélarinnar er Har­ald­ur Diego, formaður samtakanna. 

Í birtingu voru allir tilbúnir

Halldór bað einkaflugmenn sem aðstoðað gætu við leit úr lofti að gefa sig fram við sig, en hann er í sambandi við aðgerðarstjórn. 

„Við erum að gera þetta í samráði við Isavia og leitarstjórn, með ákveðin svæði. Það eru allavega komnar fimmtán vélar á blað, sem geta tekið þátt,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.

„Við erum bara í startholunum þangað til að við fáum skipulögð leitarsvæði frá þeim,“ bætir hann við. 

Halldór óskaði fyrst eftir aðstoð félaga sinna í gær en of mikið myrkur var skollið á til að hægt vær að hefja skipulagða leit þá. „Það voru örfáir sem fóru á eigin vegum, ekki með neitt skipulag í huga. Í birtingu voru allir tilbúnir að fara strax.“

Góður flugmaður og vanur

Halldór segir að samfélag einkaflugmanna sé ekki stórt og málið leggjast þungt á það. „Allir þekkja alla. Það er mikil samkennd og allir vilja leggja sitt af mörkum. Það er vont að bíða,“ segir Halldór sem er góður vinur Haralds. 

„Hann er góður flugmaður og vanur og þetta var ósköp venjulegt flug. Það veit enginn hvað getur komið upp á.“

Halldór segir hug flugmanna í félaginu vera hjá aðstandendum flugmanns og farþega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert