Fylgist með og hefur áhyggjur af stöðunni hjá SÁÁ

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að hann fylgist með stöðunni og átökunum sem eigi sér stað í stjórn SÁÁ. Hann treysti því þó að átökin liti ekki þjónustu samtakanna og að ekki verði rof á henni.

Ein­ar Her­manns­son, sem var formaður SÁÁ, sagði af sér í síðasta mánuði eftir að upp komst að hann hafði keypt sér vændi af konu sem var og er skjól­stæðing­ur SÁÁ. Stuttu síðar baðst stjórnarmaðurinn Hörður J. Odd­fríðar­son afsökunar og gekkst við  því að vera ger­andi gagn­vart Jó­dísi Skúla­dótt­ur, þing­manns Vinstri grænna.

Fjölmiðlakonan Þóra Kristín Ásgeirsdóttir ákvað að bjóða sig fram til formanns samtakanna á komandi aðalfundi en dró framboð sitt til baka nokkrum dögum síðar og sagði að unnið hefði verið að því leynt og ljóst að grafa upp atriði úr einkalífi hennar sem og að „hlaða bálköst“ gagnvart yfirmanni hennar, Kára Stefánssyni, sem einnig var í stjórn samtakanna. Sögðu þau sig bæði úr stjórninni í kjölfarið.

Frosti Logason, útvarpsmaður sem situr jafnframt í framkvæmdastjórn SÁÁ, hefur síðan ásakað Arnþór Jónsson, fyrrverandi formann samtakanna, um ofbeldishegðun. Sagði Arnþór sig úr stjórninni fyrr í dag.

Segir átökin hatrömm og óvægin

Spurður út í stöðuna eftir fréttir undanfarna daga segir Willum að hann hafi áhyggjur af henni segir hann: „Já, sérstaklega þegar þau [átökin] eru svona hatrömm eins og þau birtast okkur og óvægin.“ Bendir hann á að SÁÁ sé með samning við Sjúkratryggingar Íslands um mjög mikilvæga þjónustu sem sé hluti af heilbrigðisþjónustu landsins. „Ég legg áherslu á að þessi átök liti ekki þá þjónustu og að það verði ekki rof á henni,“ segir Willum. Segist hann treysta því að fólkið sem stjórni samtökunum, þótt það takist á núna, láti það ekki hafa áhrif á faglega þjónustu sjúkrahússins. „Ég held að fólk hafi alveg dómgreind til að bera til að átta sig á því,“ segir hann.

Willum tekur þó fram að ef eitthvað sé hægt að liðsinna í málefnum sjúkrahússins í tengslum við þessi átök muni ráðuneytið sjálfsagt skoða það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert