Leitinni að flugvélinni sem hvarf um hádegisbil í gær er lokið í dag en hennar verður áfram leitað á morgun. Byrjað verður að leita klukkan tíu.
Mest hefur verið leitað á sunnanverðu Þingvallavatni í dag. Um 1000 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni í dag.
„Eins og staðan er núna þá er mest verið að horfa á að það er búinn að vera mikill þungi í aðgerðum í dag. Mesti þunginn hefur verið á sunnanverðu Þingvallavatni og svæðinu þar í kring. Það hafa einhverjar vísbendingar bæst við stóra púslið í dag sem styðja við að menn hafi verið á þessum slóðum við sunnanvert vatnið,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is.
Fréttin hefur verið uppfærð en áður hafði verið búist við því að vegna veðurs yrði ekki hægt að halda leitinni áfram á morgun.