Landeigendur sem mæta þurfa nýjum kröfum íslenska ríkisins um viðbót við þjóðlendur gera margvíslegar athugasemdir við lagabreytingu sem nú er byggt á og framkvæmd hennar. Meðal annars telja þeir að endurtekin málsmeðferð óbyggðanefndar á svæðum þar sem málsmeðferð hefur verið lokið stríði gegn stjórnskipunarlögum. Búast má við löngum málaferlum, ef málum verður haldið til streitu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Með breytingu á lögum um þjóðlendur á árinu 2020 var sett inn heimild fyrir óbyggðanefnd að taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð hennar, ef hún hefur í úrskurði gert athugasemd við kröfugerð ríkisins. Var málið umdeilt innan hluta stjórnarflokkanna og hluti stjórnarandstöðunnar var andvígur. Eigi að síður taldi meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar að næg rök væru fyrir því að endurupptaka þessi mál og var frumvarpið samþykkt á Alþingi. Rétt er að geta þess að aðstæður voru sérstakar, stjórnarþingmenn fundu fyrir miklum þrýstingi frá samstarfsfólki í ríkisstjórn um að hleypa málinu í gegn.
Óbyggðanefnd tók þá þegar til við að virkja þetta ákvæði og ákvað, með hliðsjón af greinargerð með frumvarpinu, að hefja málsmeðferð á sautján svæðum að nýju. Ríkið þurfti ekki að gera nýjar kröfur en ákvað að gera miklu umfangsmeiri kröfur en við fyrri málsmeðferð, að því er virðist án þess að ný gögn lægju þar að baki.
Þannig stóð málið þegar níu lögmenn landeigenda sem hlut eiga að máli tóku sig saman um að gera sameiginlega kröfu um að öll óbyggðanefndin og starfsmenn hennar vikju sæti. Rökin voru meðal annars þau að óbyggðanefnd væri að fjalla um mál sem hún hafði áður úrskurðað í og hefði auk þess haft frumkvæði að lagasetningunni.