Sér fram á veruleg skref í næstu viku

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Unnur Karen

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segist sjá fram á að hægt sé að taka veruleg skref til afléttinga sóttvarnaaðgerðum í næstu viku. Telur hann þannig líklegt að hægt verði að flýta skrefi tvö í áður kynntri afléttingaráætlun um tvær vikur. Þetta sagði Willum eftir ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu í morgun.

Skref tvö í aðgerðaáætluninni sem kynnt var fyrir viku átti að taka gildi 24. febrúar. Þar var gert ráð fyrir að hækka fjöldatakmarkanir úr 50 í 200 manns og að á sitjandi viðburðum verði heimilt að hafa þúsund manns í hólfi. Þá átti að heimila sundstöðum, skíðasvæðum og líkamsræktarstöðvum að hafa opið fyrir 100% af hámarksfjölda. Einnig að íþróttakeppnir með þúsund áhorfendum verði heimilaðar og veitingastaðir og krár fái að hafa opið til miðnættis og hleypa fólki inn til miðnættis.

„Þetta hefur verið að vinna vel með okkur og ekkert óvænt gerst síðan við kynntum fyrir viku og tók gildi síðasta laugardag. Mér finnst blasa við að við getum tekið veruleg skref til afléttinga í næstu viku ef ekkert gerist eins og kemur fram í minnisblaði og áhættumati sóttvarnalæknis,” sagði Willum eftir fundinn.

Willum hefur þegar sent tillögur til sóttvarnalæknis en hann segir að nú muni Þórólfur fara yfir það og meta áhættuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka