Lögreglan á Suðurlandi fer nú yfir myndbönd sem hafa borist úr öryggismyndavélum sumarbústaða við Þingvallavatn.
Fyrr í dag óskaði lögreglan á Suðurlandi eftir því að eigendur sumarbústaða við sunnanvert Þingvallavatn yfirfæru öryggismyndavélar sínar og gættu að því hvort þar væru gögn sem gætu nýst við leitina að flugvélinni sem hvarf um hádegisbil í gær.
„Við höfum fengið eitthvað af myndböndum úr öryggismyndavélum við vatnið og er verið að fara í gegnum það. Það sem er að búið fara í gegnum hefur ekki skilað okkur staðfestingu á því að þetta sé slysstaðurinn,“ segir Oddur Árnason, yfirlögreglustjóri á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.