Nemendum í Framhaldsskólanum á Laugum býðst áfallahjálp frá áfallateymi Rauða krossins ásamt því að námsráðgjafi og sálfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri hafa verið, og verða með, viðveru í skólanum næstu daga.
Prestur er nemendum innan handar, læknir og hjúkrunarfræðingur bjóða nemendum upp á að leita til sín og eru með viðveru í skólanum ásamt því að neyðarstjórn skólans er að störfum.
Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólameistari á Laugum, segir nemendur við skólann hafa verið dugleg að sækja þá þjónustu sem er í boði, eftir hræðilegt banaslys sem varð við lóð skólans í fyrradag. 19 ára piltur lést eftir að hafa orðið fyrir bíl, en hann ásamt öðrum, var að renna sér niður brekku sem liggur nærri vegi upp að skólanum.
Skólahald hófst í morgun með samverustund.
„Það er haldið mjög þétt utan um fólk hér,“ segir Sigurbjörn Árni. „Þau tala við krakkana ein og í hópum og við reynum að finna þá sem okkur sýnist að þurfi virkilega að tala og erum halda vel utan um þá. Við byrjuðum skólastarf í dag í mjög rólegum upptakti,“ segir hann.
Sigurbjörn segir nemendur styðja hvern annan mjög vel. Framhaldsskólinn á Laugum er heimavistarskóli og því margir nemendur fjarri heimili.