„Við komum bara keyrandi núna í nótt. Lögðum af stað klukkan tvö frá Siglufirði. Vorum að koma núna bara,“ segir Ingvar Erlingsson, hjá björgunarsveitinni Strákum en þeir eru á meðal björgunarsveitarmanna sem leita við Þingvallavatn.
Viðbragðsaðilar frá björgunarsveitum, Landhelgisgæslu og lögreglu leggja nú mikið kapp á að finna flugvél með fjóra innanborðs sem ekki hefur spurst til síðan klukkan 11:45 fyrir hádegi í gær.
Allsherjarútkall var sent út til björgunarsveita í gærkvöldi og svöruðu Strákar því kalli. Þeim var úthlutað svæði við Grafningsveg efri við sunnanvert Þingvallavatn og leita þeir þar með dróna ásamt björgunarsveit Kyndils frá Mosfellsbæ.