Tilnefnir dómaraefni við Mannréttindadómstól Evrópu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðuneytið hefur sent tilnefningar Íslands um dómaraefni við Mannréttindadómstól Evrópu til ráðgjafarnefndar á vegum Evrópuráðsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði, í samræmi við viðmiðunarreglur Evrópuráðsins um val á þeim sem tilnefna skal sem dómaraefni við Mannréttindadómstól Evrópu, fimm manna nefnd til að leggja mat á hæfi umsækjenda til að vera tilnefnd af Íslands hálfu.

Nefndin hefur nú lokið störfum og er niðurstaða hennar að allir þrír umsækjendurnir sem sóttust eftir tilnefningu teljast hæfir til að verða tilnefndir af Íslands hálfu sem dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu.

Kjör fer fram í júní

Þau sem sóttu um að vera tilnefnd sem dómaraefni af Íslands hálfu eru Jónas Þór Guðmundsson, hæstaréttarlögmaður, Oddný Mjöll Arnardóttir, landsréttardómari og rannsóknarprófessor og Stefán Geir Þórisson, hæstaréttarlögmaður.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg.
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg. Ljósmynd/Mannréttindadómstóll Evrópu

Dómarar við Mannréttindadómstólinn eru kjörnir af þingi Evrópuráðsins af lista með þremur mönnum sem samningsaðili tilnefnir. Fer það kjör fram í júní n.k.

Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg fjallar um mál sem til hans er vísað af einstaklingum og samningsaðilum vegna meintra brota á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu eða samningsviðaukum við hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert