Tjón upp á tugi milljóna

Frá lager Ó. Johnson & Kaaber.
Frá lager Ó. Johnson & Kaaber. Aðsent

Heildsölurnar Ó. John­son & Kaaber, Sæl­kera­dreif­ing­ar og Ísam voru óstarfhæfar í gær og í dag vegna tölvuárásar sem gerð var á tölvukerfi heildsalanna sem reknar eru sameiginlega.

Ólafur Ó. Johnson, framkvæmdastjóri heildsalanna, segir í samtali við mbl.is að unnið sé að því að endurheimta það sem hafði verið afritað og setja upp.

„Við ættum að vera búin að koma þessu upp aftur um helgina. En þetta er vont mál að lenda í,“ segir hann.

Ekki liggur fyrir hvaðan árásin var gerð að svo stöddu. Málið hefur verið kært til lögreglu sem gagnastuldur og skráð hjá Europol. Netör­ygg­is­sveit Cert-is aðstoðar við rannsókn málsins.

Frá lager Ó. Johnson og Kaaber.
Frá lager Ó. Johnson og Kaaber. Ljósmynd/Aðsend

Kom aldrei til greina að borga

„Okkur var hótað, að við þyrftum að borga til þess að fá þetta. Við ákváðum að fara ekki þá leið,“ segir Ólafur og bætir við að lögregla mælist gegn því að slíkt lausnargjald sé greitt. Það hafi aldrei komið til greina að þeirra hálfu. 

Ekki liggur fyrir hve hárrar upphæðar tölvuþrjótarnir kröfðust enda opnuðu stjórnendur ekki hlekk sem fylgdi tölvupósti með leiðbeiningum frá þjófunum.

„Þetta er fjárhagslegt tjón upp á tugi milljóna, það er ekki spurning. En verst er að missa niður sölu og þjónustu í tvo heila daga. Það eru margir kúnnar sem reiða sig á okkar þjónustu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert