Vill kippa málunum í liðinn

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Einfalda svarið er nei,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra þegar hann er spurður hvort hægt sé að una því ástandi sem löng bið eftir liðskiptaaðgerðum hefur skapað.

Fólk sem bíður lengur en í 90 daga hefur getað fengið að fara í aðgerð í öðru EES-landi á kostnað ríkisins en ekki á einkarekinni skurðstofu hér vegna skorts á samningi við sérgreinalækna.

„Það þarf ýmislegt að ganga upp til þess að við getum komið þessu í betri farveg. Það þarf að ná samningum við sérgreinalækna og við erum byrjuð að vinna í því í ráðuneytinu,“ segir Willum í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir að fram þurfi að fara samtal milli Sjúkratrygginga, lækna og ráðuneytisins. Skoða þurfi málin með þeim sem geta veitt þessa þjónustu. Sjúklingar þurfi að fá hana á réttum stað og réttum tíma. „Kannski þurfum við að taka þetta í einhverjum skrefum. Ná samningum fyrst. Við erum byrjuð að vinna hér í ráðuneytinu og svo með Sjúkratryggingum að því að setja fram samningsmarkmið. Það þarf að vera ávinningur í þessu fyrir alla aðila, ekki síst fyrir samfélagið. Að við nýtum takmarkaða fjármuni sem best.“

Willum segir að kerfið þurfi allt að spila saman. „Verkefnið er að hætta að horfa á hver gerir aðgerðina heldur hvar skynsamlegast er að gera hana til þess að sjúklingurinn fái þjónustuna, sem er jafndýr fyrir samfélagið hver sem veitir hana,“ sagði Willum.

Einnig þarf skilgreindur biðtími eftir aðgerð að vera ásættanlegur og biðlistinn gagnsær og skýr. Willum telur að sú staða að fólk bíði í meira en 90 daga eftir aðgerð eigi ekki að þurfa að koma upp ef við erum með nægilega góða samvinnu í okkar kerfi, vitum hverjir eru á biðlista og hvenær þeir þurfa að fara í aðgerð. Sjúklingurinn geti þá leitað þangað sem hann fær þjónustu á réttum tíma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka