Voru handteknir nálægt klúbbhúsi Bandidos

Mennirnir voru handteknir á síðasta ári.
Mennirnir voru handteknir á síðasta ári. Ljósmynd/lögreglan á Suðurnesjum

Þrír finnskir liðsmenn vélhjólasamtakanna Bandidos MC kærðu síðasta haust, án árangurs, ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun þeirra frá landinu og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi.

Þeir voru handteknir af lögreglunni 9. október í fyrra nálægt klúbbhúsi MC Bandidos Iceland í Reykjanesbæ.

Fram kemur í úrskurðum kærunefndar útlendingamála að í greinargerð hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð málsins af hálfu lögreglunnar á Suðurnesjum og Útlendingastofnunar „sem hafi frá upphafi litast af offorsi og virðingarleysi yfirvalda fyrir lögum og mannréttindum“.

Þar segir að mennirnir hafi komið til landsins 7. október og dvalið á hóteli í tvær nætur og ferðast um Suðurland. Laugardaginn 9. október hafi sérsveit ríkislögreglustjóra ásamt hópi annarra lögreglumanna safnast fyrir utan húsnæði í einkaeigu í Ásbrú í Reykjanesbæ. Lögreglan hafi beðið þar átekta eftir að hafa frétt af fyrirhuguðu einkasamkvæmi þar. Þegar Finnarnir mættu á svæðið hafi lögreglan handtekið þá.

Í úrskurðunum, þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest, segir að koma Bandidos MC til Íslands síðasta haust tengist auknum umsvifum samtakanna hérlendis. Þau hafi náð hér fótfestu og samkvæmt upplýsingum sænskra lögregluyfirvalda hafi Bandidos á Íslandi verið veitt fullgild staða innan Bandidos MC í Svíþjóð.

„Verður að mati kærunefndar lagt til grundvallar að kærandi hafi með þátttöku sinni í samtökum Bandidos og heimsókn sinni til Íslands samsamað sig meginmarkmiðum samtakanna og fyrirætlunum þeirra. Þannig hafði hann frammi persónubundna háttsemi sem fól í sér raunverulega og alvarlega ógn við þá grundvallarhagsmuni samfélagsins að vernda allsherjarreglu og almannaöryggi,“ segir í einum úrskurðanna þriggja og er því bætt við að lagaskilyrði til að vísa mönnunum frá landi hafi verið fyrir hendi.

Varðandi meint ólögmæti handtöku þeirra segir að slíkt falli undir lög um meðferð sakamála og heyri því ekki undir valdssvið kærunefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert