Andlát: Dóra Ólafsdóttir, elsti Íslendingurinn

Dóra Ólafsdóttir.
Dóra Ólafsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóra Ólafsdóttir, sem var elst Íslendinga, lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík í gærmorgun, á 110. aldursári. Dóra fæddist í Sigtúnum á Kljáströnd í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu 6. júlí 1912. Foreldrar hennar voru Ólafur Gunnarsson útgerðarmaður og Anna María Vigfúsdóttir húsfreyja.

Að loknu gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri, síðar MA, fór Dóra til Kaupmannahafnar. Eftir það var hún talsímavörður hjá Landsímanum á Akureyri í rúm 40 ár, á árunum 1936 til 1978. Hún bjó lengst af í Norðurgötu 53 þar í bæ. Dóra var orðin 100 ára þegar hún hætti að sjá um sig sjálf í Norðurgötunni og fluttist í hjúkrunarheimilið Skjól í Reykjavík.

Eiginmaður Dóru var Þórir Áskelsson, sjómaður og seglasaumari. Hann lést árið 2000. Sonur Dóru og Þóris er Áskell blaðamaður og dóttir Dóru er Ása Drexler sem búsett er í Bandaríkjunum.

Dóra var vel ern fram undir það síðasta þótt sjón og heyrn hefði dalað.

Hún var einlægur stuðningsmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu og horfði á alla leiki þess. Eitt af áhugamálum hennar var að prjóna dýr og furðuverur í ýmsum stærðum og gerðum. Flest börn í ættinni fengu prjónaðan kött eða eitthvað áþekkt frá henni. Dóra hefur lengi verið áskrifandi Morgunblaðsins og las blaðið spjaldanna á milli og miðlaði fróðleik úr því til þeirra sem hún umgekkst.

Dóra þakkaði aldurinn því að hún hefði lifað heilbrigðu lífi og hvorki notað áfengi né tóbak, eitt sinn þegar Morgunblaðið ræddi við hana um háan aldur hennar. „Á meðan ég get lesið og gengið þarf ég ekki að kvarta,“ sagði hún.

Dóra var elst Íslendinga. Hún hafði náð hærri aldri en nokkur annar hér á landi.

Hallfríður Nanna Franklínsdóttir á Siglufirði er nú elst Íslendinga, 105 ára síðan í maí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka