Lögreglu, Landhelgisgæslu og björgunaraðilum hefur ekki enn tekist að finna farþegana fjóra sem voru um borð í vélinni sem fannst í Þingvallavatni í nótt þar sem að erfitt er að komast niður að flaki vélarinnar.
Þetta staðfestir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Erlendir miðlar greindu frá því í dag að fjögur lík hafi fundist í vatninu. Oddur segir enga slíka staðfestingu hafa borist.
Talið er að mennirnir fjórir sem voru um borð í vélinni séu látnir. Engin yfirlýsing hefur þó verið gefin út þess efnis og óvíst hvort slíkt verði gert, að sögn Odds.
„Við vonumst til þess að þeir séu í brakinu en ég hef ekki staðfestingu á því.“
Í dag var greint frá því að þar sem slysstaður væri fundinn tæki Lögreglan á Suðurlandi yfir aðgerð og stjórn málsins sem áður var í höndum Landhelgisgæslu.
„Framundan er tæknilega flókin aðgerð við að ná flakinu og fólkinu sem í vélinni var upp á yfirborðið,“ segir í tilkynningu lögreglunnar en flugvélin fannst á 50 metra dýpi.
Sú vinna mun fara fram samhliða rannsókn slyssins og er í höndum rannsóknardeildar Lögreglunnar á Suðurlandi og Rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Næstu dagar verða nýttir til undirbúnings verkefnisins og er talið að til þess þurfi verðurglugga sem varir að minnsta kosti í tvo sólarhringa.