Sigurður Bogi Sævarsson
Meira en 40 ár eru frá því efnt hefur verið til jafn umfangsmikilla aðgerða vegna týndrar flugvélar og gert var í leitinni að flugvélinni TF-ABB sem fannst í Þingvallavatni í gærkvöldi.
Í maí 1981 fórst TF-ROM, fjögurra sæta einkaflugvél sem var á leiðinni til Akureyrar. Sú vél fannst eftir tveggja vikna leit sem hafði áður en yfir lauk náð til stórs hluta landsins.
Flugvélin TF-ROM fór í loftið í Reykjavík snemma kvölds 27. maí 1981 og var stefnan sett á Akureyri. Fjórir menn voru um borð, allir félagar í JC-hreyfingunni og voru á leið til funda hennar fyrir norðan. Áætluð lending á Akureyri var kl. 20:30, en þegar vélin skilaði sér ekki þangað hófst leit. Í fyrstu var áherslan á Holtavörðu- og Arnarvatnsheiði, skv. líklegri flugleið. Síðan var meiri þungi settur í leit í Húnavatnssýslum, Skagafirði og á Tröllaskaga. Í sveitum þar taldi fólk sig hafa séð flugvél þetta kvöld, eins og lýst var í Morgunblaðinu.
„Ábendingar bárust víða frá, fólk á hinum ýmsu stöðum þóttist hafa heyrt til flugvélarinnar eða séð. Mjög stórt landsvæði var undir,“ segir Ingvar F. Valdimarsson, fyrrverandi flugumferðarstjóri, sem var jafnframt í aðgerðastjórn Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík. „Leitinni var stýrt úr flugturninum í Reykjavík þar sem við skiptum landinu upp í reiti á stóru korti. Einkaflugmenn fengu hver sitt svæði til að kemba og lögðu mikið á sig, eins og allir sem að málinu komu gerðu.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.