Inga Þóra Pálsdóttir
Lögreglan á Suðurlandi vinnur nú að því að skipuleggja aðgerðina við að ná flaki flugvélarinnar sem fannst í Þingvallavatni í gærkvöldi upp á yfirborðið. Aðgerðin er lífshættuleg og er hætta á mengunarslysi.
Þetta segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Næstu dagar verða nýttir til undirbúnings verkefnisins. Til þess að það gangi vel fyrir sig þarf að vera veðurgluggi sem varir að minnsta kosti í tvo sólarhringa.
Aðgerðinni fylgja umtalsverðar hættur fyrir björgunarlið og er því mikilvægt að hún sé vel undirbúin.
„Að kafa niður á 50 metra dýpi er eitt og sér lífshættulegt,“ segir Oddur.
Þá hafa olíuflekkir sést á vatninu og verður því eitt af verkefnum lögreglunnar og annarra viðbragðsaðila að tryggja að ekki verði mengunarslys við aðgerðina.