Í dag hófst ljósmyndasýningin Er komið að skimun hjá þér? í Kringlunni. Sýningin er hluti af hvatningarátaki Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um mikilvægi skimana fyrir leghálskrabbameini.
Tólf konur úr íslensku samfélagi leggja átakinu lið og deila persónulegum sögum af leghálsskimun segir í tilkynningu.
Í hópi kvennanna sem styðja átakið með þátttöku sinni í ljósmyndasýningunni eru Eliza Reid forsetafrú, Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri, Þuríður Sigurðardóttir söngkona og Ebba Katrín Finnsdóttir, leikkona.
Sýningin stendur út febrúarmánuð í Kringlunni en hana má einnig finna á heimasíðu Samhæfingarstöðvarinnar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
„Við hvetjum alla til að skoða sýninguna í Kringlunni eða á vefnum. Um leið hvetjum við konur að panta tíma þegar boð um skimun berst,“ er haft eftir Ágústi Inga Ágústssyni, yfirlækni Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana, í tilkynningunni.