Tæknilega flókin aðgerð framundan

Frá Þingvallavatni í gær.
Frá Þingvallavatni í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framundan er tæknilega flókin aðgerð við að ná flaki flugvélarinnar sem fannst í Þingvallavatni í gærkvöldi og fólkinu sem í vélinni var upp á yfirborðið.  Sú vinna fer fram samhliða rannsókn slyssins sem er í höndum rannsóknardeildar lögreglunnar á Suðurlandi og rannsóknarnefndar samgönguslysa. Tæknileg úrlausn hennar verður í höndum Landhelgisgæslu og sérsveitar ríkislögreglustjóra sem munu kalla til þá aðila sem til þarf.   

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni, en flugvélin fannst á um 50 metra dýpi. 

Næstu dagar verða nýttir til undirbúnings þess verkefnis. Til þess að það gangi vel fyrir sig þarf að vera veðurgluggi sem varir að minnsta kosti í tvo sólarhringa. Aðgerðinni fylgja umtalsverðar hættur fyrir björgunarlið og skiptir miklu að hún sé vel undirbúin.

„Stjórnendur aðgerða vilja koma á framfæri einlægum þökkum til björgunarsveita og viðbragðsaðila allra, sjálfboðaliða og einstaklinga sem boðið hafa fram aðstoð sína í formi leitar úr lofti og vatni, fæðis, gistiaðstöðu eða hverju þvi sem nöfnum tjáir að nefna og í raun einstök verðmæti sem felast í þeirri samheldni meðal landsmanna sem aðgerðin leiðir í ljós,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að starfshópur Landhelgisgæslu og kafara sérsveitar ríkislögreglustjóra ásamt björgunarsveitum hafi um miðnætti í gær, með sónarmyndun, staðsett flak flugvélarinnar TF ABB á botni Ölfusvatnsvíkur í Þingvallavatni. 

Í framhaldi af því var sendur kafbátur niður og með honum voru teknar ljósmyndir af flakinu sem staðfesta að um þessa tilteknu vél er að ræða.  Í framhaldi lauk vinnu á vettvangi. Í nótt var unnið  úr gögnunum og voru þau lögð fyrir á fundi aðgerðarstjórnar nú í hádeginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert