Starfið hér á hesthúsasvæðinu er fjölbreytt og þátttakan mikil,“ segir Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ. Aðstaða félagsins er á Varmárbökkum, þar sem eru margir tugir hesthúsa, reiðhöll, keppnisvellir og fleira. Rúnar áætlar að nú á fyrstu mánuðum nýs árs, þegar hestamenn eru búnir að taka klára sína á hús, séu um 1.000 hross á svæðinu og að fólkið sem stundar sportið á svæðinu sé ámóta margt.
„Þúsund á móti þúsund er tala kannski ekki svo fjarri lagi. Auðvitað er hún hvergi til staðfest, en segir sitt um hve öflugt starfið er,“ segir Rúnar sem í áratugi starfaði sem lögreglumaður. Er nú kominn á eftirlaun og helgar sig hestamennskunni og öllu því skemmtilega sem henni fylgir.
Hestamennskan er ekki bara sport, heldur fylgir henni líka talsverð atvinnustarfsemi, eins og Rúnar bendir á. Á Varmárbökkum er iðandi líf. Þar eru með starfsemi til dæmis fyrirtæki sem sinna flutningum á hrossum og selja og flytja úr landi. Einnig eru dýralæknar með aðstöðu á svæðinu, tamningamenn og reiðkennarar svo eitthvað sé nefnt.
Hestamannafélagið Hörður reisti fyrir um áratug stóra reiðskemmu á hesthúsasvæðinu, liðlega 2.400 fermetra byggingu sem fljótt sannaði gildi sitt. Í höllinni góðu er iðandi líf frá því snemma á morgnana og langt fram eftir kvöldi; reiðmennska, tamningar, kennsla og æfingar. Einnig hafa þar verið reiðsýningar, þótt ládeyða hafi raunar verið í öllu slíku síðustu misserin vegna sóttvarna.
Nýlega hófst á vegum Harðar starf, þar sem börnum sem eru áhugasöm um hestamennskuna gefst tækifæri til að kynnast sportinu. Í þessu sambandi er horft til ungmenna sem ekki eiga foreldra eða frændgarð í hestmennskunni. Nú á vormisseri gefst tólf krökkum kostur á að koma inn í þetta starf – en vegna þess leigir Hörður húspláss og leggur til hross og aðra aðstöðu.
„Vegna þessa starfs fáum við stuðning frá bænum. Þau sem ráða áherslum sveitarfélagsins hafa skilning á mikilvægi starfsins hér, sem er mikilvægur félagslegur vettvangur,“ segir Rúnar. „Hingað kemur fólk á öllum aldri til að sinna sínu skemmtilega áhugamáli; aldraðir, börn og fjölskyldur. Reiðkennsla þar sem fötluð börn komast á bak er skemmtilegur hluti í starfinu hér. Að komast á bak er góð æfing fyrir jafnvægisskyn þeirra og raunar fleira. Brosið á börnunum þegar þau komast í snertingu við hestana er einlægt og fallegt,“ segir Rúnar sem hefur verið í hrossastússi frá barnsaldri.