„Munurinn á frænda mínum er ótrúlegur og allt annað hljóð í honum. Bara eins og dagur og nótt. Það hafði ekkert verið hlustað á hann árum saman og honum leið eins og hann væri búinn að missa röddina. Nú líður honum miklu betur og það sýnir manni hversu miklu máli það skiptir að valdefla fólk sem glímir við geðsjúkdóma og leyfa því að taka þátt í sinni eigin batagöngu. Það er víst nógu erfitt að vera ungur maður með geðsjúkdóm, þó sjálfræðissvipting bætist ekki þar ofan á.“
Þetta segir Perla Torfadóttir, móðursystir og persónulegur talsmaður ungs manns, sem fékk úrskurði héraðsdóms um sjálfræðissviptingu hnekkt í Landsrétti fyrir rúmum mánuði.
Um er að ræða langa og stranga baráttu, frændi hennar var fyrst sviptur sjálfræði árið 2015, og Perla viðurkennir að hún hafi ekki haft mikla trú á Landsrétti. Gleðin hafi því verið þeim mun meiri. „Við hoppuðum eiginlega bara hæð okkar, fjölskyldan öll, og fórum beint heim til hans með blöðrur. Þetta var stór dagur. Stór sigur.“
Helga Baldvins Bjargardóttir, lögmaður mannsins, segir úrskurð Landsréttar merkilegan fyrir þær sakir að afar sjaldgæft sé að dómstólar fari gegn mati lækna í málum sem þessum.
„Ég hef verið þeirrar skoðunar að dómarar þurfi að stíga fastar inn í þetta hlutverk sitt og það gera þeir svo sannarlega hér. Hlusta þarf á fleira en bara álit lækna, eins og til dæmis aðra sérfræðinga, eins og sálfræðinga eða annarra sem vinna með erfiða líðan og meta málið út frá mannréttindum og meðalhófi. Það getur líka þurft að krefja lækna um betri rökstuðning, eins og til dæmis hvort önnur úrræði séu fullreynd. Geðlæknisfræðin byggir að miklu leyti á hringrökum og matið huglægara en gengur og gerist í læknisfræðinni. Þess vegna nægir ekki að horfa bara á einkennin,“ segir Helga og bætir við að mikil íhaldssemi og forræðishyggja sé innbyggð í kerfið.
Í öðru máli hnekkti Landsréttur líka úrskurði héraðsdóms seint á síðasta ári en það hverfðist um nauðungarvistun. Spurður hvort úrskurður Landsréttar gæti orðið upptaktur að lagabreytingu segir Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður sóknaraðila, það alls ekki óhugsandi. „Þessi úrskurður skapar ákveðin vandræði fyrir kerfið og spurningar um það hvort lögræðislögin, sem eru frá 1997, séu orðin gamaldags. Margt hefur breyst síðan og halda má því fram með sterkum rökum að óeðlilegt sé að miða við 25 ára gömul lög.“
Að áliti Garðars Steins á fólk með andleg veikindi að njóta sama réttar og aðrir sjúklingar. „Sendi læknir hjartasjúkling eða sjúkling með sykursýki heim og treysti honum til að hugsa um mataræði sitt og hreyfingu sjálfum eru allar líkur á því að honum hraki. Það þýðir hins vegar ekki að rétt sé að nauðungarvista hann. Alveg sama máli á auðvitað að gegna um einstakling með andlega kvilla, svo lengi sem hann er ekki hættulegur sjálfum sér og öðrum.“
Hann segir gangkvæmt traust mjög mikilvægt í þessu sambandi. „Hvernig ætlar þú að meðhöndla einhvern til lengri tíma ef hann treystir þér ekki?“
Ítarlega er fjallað um bæði þessi mál í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.