Mesta óveður í tvö ár

Fólk er hvatt til þess að vinna heima.
Fólk er hvatt til þess að vinna heima. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna mælir með því að fólk vinni heima á morgun, hafi það tök á slíku. Rauð viðvörun verður í gildi frá fjögur í nótt til 8.30 í fyrramálið.

Mælt er með því að fólk fylgist vel með fréttum og taki morguninn rólega.

Víðir segir að meira óveður hefur ekki skollið á síðan í febrúar 2020, en í þetta skiptið er spáð snjókomu í ofanálag, svo búast má við ófærð víða.

„Þetta hittir þannig séð vel á, þetta gengur yfir seint í nótt og snemma í fyrramálið. þannig vonandi verða ekki margir þá á ferðinni. En það er ekki oft sem við segjum að það sé ekkert ferðaveður á landinu en það er þannig á morgun. Það eru engin svæði sem sleppa við einhver áhrif af veðrinu.“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki fullvíst hvenær veðrinu slotar

Fólk ætti að huga að því í fyrramálið að fara ekki af stað út fyrr en fullvissa sé um að búið sé að ryðja vegi og opna. Ekki sé fullvíst hvenær veðrinu slotar.

Almannavarnir munu miðla upplýsingum um veðrið til fjölmiðla reglulega í nótt og fyrramálið að sögn Víðis og er fólki því bent á að fylgjast vel með stöðunni.

„Fólk á að huga vel að lausamunum og huga líka að því að það verði ekkert ferðaveður, líka innanbæjar,“ segir Víðir og bætir við að misjafnt verði eftir svæðum og bæjarfélögum hvenær ráðlegt sé að fara út úr húsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert