Nýjasta og eitt glæsilegasta skemmtiferðaskip heimsflotans, Norwegian Prima, er væntalegt til Íslands síðsumars. Það hefur bókað komu sína til Reykjavíkur 24. ágúst og aftur í september.
Norwegian Prima er hið fyrsta af sex skipum sem Norwegian Cruise Line lætur smíða. Það er smíðað á Ítalíu og á að verða tilbúið til siglinga um mitt þetta sumar. Er það í hópi stærstu skipa sem hingað eru væntanleg í sumar, 142.500 brúttótonn og vistarverur eru á 16 hæðum. Það tekur 3.250 farþega og í áhöfn eru 1.500 manns. Því eru tæplega 5.000 manns um borð.
Skipið er 294 metra langt, eða því sem næst þrír fótboltavellir. Eins og gefur að skilja verður boðið upp á hágæða þjónustu og afþreyingu um borð. Uppgefinn smíðakostnaður 730 milljónir evra, eða jafnvirði rúmlega 100 milljarða íslenskra króna. Norwegian Cruise Line er bandarískt skipafélag með höfuðstöðvar í Miami. Það er þriðja stærsta félagið á markaði skemmtiferðaskipa.
Sumarvertíð farþegaskipa hefst um miðjan mars nk. þegar fyrstu skipin eru væntanleg til landsins. Nú er staðan hjá Faxaflóahöfnum sú að bókaðar eru 205 skipakomur til Reykjavíkur með rétt rúmlega 219 þúsund farþega.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í gær.