Reyndi að stinga mann með skrúfjárni

Karlmaður var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur eftir að hafa reynt að stinga mann með skrúfjárni. Maðurinn er einnig í ólöglegri dvöl hér á landi. Hann var vistaður í fangaklefa.

Hópslagsmál brutust út við skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Upplýsingar voru teknar á staðnum og að því loknu gengu aðilar sína leið, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Eigandi skemmtistaðar var kærður fyrir brot á sóttvarnalögum og lögum um veitinga- og skemmtistaði þar sem staðnum var ekki lokað á tilsettum tíma.

Rataði ekki á hótelið

Áttavilltur erlendur ferðamaður, sem var búinn að fá sér aðeins of mikið neðan í því, var aðstoðaður upp á hótel þar sem hann rataði ekki þangað.

Ökumaður sem var sviptur ökuréttindum og undir áhrifum fíkniefna var stöðvaður í Hafnarfirði. Maðurinn var einnig með tvö börn í bifreiðinni. Börnunum var komið í hendur móðir og barnavernd tilkynnt um málið.

Aðili í annarlegu ástandi var aðstoðaður eftir að hafa dottið á höfuðið í Hafnarfirði með þeim afleiðingum að blæddi úr höfði og fæti.

Innbrot í heimahús

Brotist var inn í heimahús í Kópavogi og er málið í rannsókn.

Þá voru afskipti höfð af aðila sem var að stela úr verslun í Árbænum og var málið afgreitt með vettvangsskýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert