Guðmundur Magnússon
Talsvert hefur verið um forföll fastra blóðgjafa Blóðbankans síðustu þrjá mánuði og er það rakið til kórónuveirufaraldursins sem leitt hefur til þess að fjöldi fólks hefur orðið að dvelja í sóttkví og einangrun. Blóðbirgðir eru nú aðeins undir öryggisviðmiðum en ekkert neyðarástand er þó ríkjandi.
„Við höfum getað sinnt öllum þörfum Landspítalans. Það hefur aldrei skapast það ástand að ekki sé hægt að útvega spítalanum blóð,“ segir Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir Blóðbankans. Hann mælist þó til þess að þeir föstu blóðgjafar sem eru við góða heilsu og tök hafa á að liðsinna mæti og gefi blóð. Nýliðar séu líka velkomnir.
Sveinn segir að á skrá Blóðbankans séu um sex þúsund virkir blóðgjafar, um fjögur þúsund karlar og tvö þúsund konur. Þessi tryggðatröll, eins og hann kallar blóðgjafana, hafi staðið sig ákaflega vel á undanförnum árum, en frá því að ný bylgja veirufaraldursins hófst í nóvember hafi eðlilega orðið nokkur forföll á komum virkra blóðgjafa. Á sama tíma hafi skapast aukin þörf fyrir blóðhluta á Landspítalanum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í gær.