Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vill að í umræðunni um kynferðisbrotamál verði gerður aukinn greinarmunur á þeim sem hafa framið gróf kynferðisbrot á borð við nauðgun og þeim sem hafa verið með dónaskap eins og að senda ósæmileg skilaboð.
Þetta sagði hún þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„Mér finnst vont fyrir umræðuna þegar við setjum þessa tvo gerendahópa á sama stað," sagði hún.
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði, sagði almenning eiga erfitt með að sjá heildarmyndina hvað varðar umræðuna undanfarin misseri um kynferðisofbeldi. Fólk viti ekki hvernig í pottinn sé búið í einstökum málum og að myndirnar séu því brotakenndar. Umræðan hafi sprungið út eftir langvarandi þögn. Þolendur hafi lengi setið inni með skömmina og ekki haft farveg til að koma henni á framfæri þangað til núna.
Helgi sagði dómhörkuna mikla í kringum þessi mál og að stundum minni þau á hlutina eins og þeir voru á miðöldum. Hann nefndi að leita þurfi nýrra leiða til að takast á við þessi mál. Bæta þurfi réttarstöðu þolenda og koma þurfi málum í lögformlegan farveg þar sem hægt væri að leysa úr þeim. „Það er okkar verkefni sem siðað samfélag,“ sagði hann og bætti við að það hafi komið sér á óvart að nýjar leiðir hafi ekki verið fundnar í þessum efnum.
Hann benti á fyrirmyndir erlendis varðandi sáttameðferðir og sagði þær vera einn valkost.
Einn þingmaður frá hverjum flokki hefur verið beðinn um, að frumkvæði Helgu Völu, að reyna að liðka um fyrir þolendum kynferðis- og heimilisofbeldis varðandi þeir höfði að minnsta kosti einkamál ef mál þeirra eru felld niður.