Ákveðin að RÚV eigi að hverfa af auglýsingamarkaði

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er á þeirri skoðun að RÚV eigi ekki að vera á auglýsingamarkaði og ég er enn á þeirri skoðun og ég mun beita mér fyrir því á þessu kjörtímabili að RÚV verði ekki á auglýsingamarkaði,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra á málþingi í dag.

Rannsóknasetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands og Blaðamannafélag Íslands í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála boðuðu til málþings um opinbera styrki til einkarekinna fjölmiðla sem átti sér stað fyrr í dag. Hægt er að horfa á streymi frá málþinginu hér.  

Lilja sagðist þó ekki vera að segja að allar auglýsingar myndu fara til einkarekinna eða frjálsra fjölmiðla. „Ég bara tel að þetta trufli markaðinn að Ríkisútvarpið sé á auglýsingamarkaði,“ sagði hún.

Þá kom fram í máli Lilju að hún teldi að kerfið varðandi skattlagningu ætti að vera miklu sanngjarnara en það er í dag. Nefndi hún þá þá „augljósu mismunun“ sem á sér stað þegar auglýst er hjá innlendum fjölmiðli annars vegar og hjá samfélagsmiðlum. En skattur er greiddur þegar auglýst er hjá innlendum aðilum en ekki hjá þeim erlendu. Þá sagðist Lilja margoft hafa kallað eftir því að á þessu yrðu gerðar breytingar og að sem betur fer hefði ríkisstjórnin fengið endurnýjað umboð svo hægt væri að halda þessari vinnu áfram.

Ákveðnir fjölmiðlar „of fínir“ fyrir styrki

Lilja sagðist hafa vitað að öll um ræða um stuðning við einkarekna fjölmiðla yrði henni sem ráðherra mjög erfið og að ákveðnir fjölmiðlar myndu ekki „höndla“ umræðuna og nefndi hún í því samhengi Sýn og Símann og sagði þá of fína fyrir styrkina.

„Ef þið eruð of fínir fyrir þetta, gætuð þið þá ekki bara vinsamlegast skilað þessum pening í ríkissjóð þannig að litlu og meðalstóru fjölmiðlarnir fái þetta sem hafa ekki jafn sterka bakhjarla og þið,“ sagði Lilja.

Þá sagðist Lilja líta á Danmörku sem fyrirmyndarland hvað varðar fjölmiðla og að Íslendingar ættu að fara dönsku leiðina. Benti hún á að þeirra ríkisútvarp væri ekki á auglýsingamarkaði og að þeir væru með styrki til einkarekinna fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert