Björgvin Páll býður sig fram í borginni

Björgvin Páll Gústavsson á EM í Búdapest.
Björgvin Páll Gústavsson á EM í Búdapest. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, sækist eftir 1.-2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

„Mig langar að taka ábyrgð á því að gæta velferðar barna og annarra viðkvæmra hópa í samfélaginu. Að auki þá hafa málefni barna snertiflöt við nánast allan rekstur borgarinnar og mynda einn helsta útgjaldalið sveitarfélagins,“ skrifar Björgvin Páll á Facebook.

Draumur að heyra börn segja að skólinn hafi bjargað sér

Áður hafði hann greint frá því að skorað hefði verið á sig að bjóða sig fram fyrir kosningarnar.

„Börn eru ekki með kosningarétt og þeim sem stjórna er falið mjög mikilvægt hlutverk sem snýr að velferð barna. Það má gera betur þegar kemur að því að forgangsraða réttindum og velferð barna með sýnilegri stefnumótun og ákvörðunartöku. Það er kominn tími á að við jöfnum leikinn og að allir fái jöfn tækifæri,“ skrifar hann og heldur áfram:

„Íþróttirnar björguðu mér og er það minn draumur að heyra fleiri og fleiri börn segja að skólinn hafi bjargað þeim. Með þeirri ákvörðun að fara í framboð er ég að fylgja hjartanu og minni ástríðu.“

Börnin eigi að fá hásætið

Hann kveðst einnig hafa mikla trú á Framsóknarflokknum fyrir komandi kosningar.

„Ástæða þess að ég hef verið að notast við orðavalið “borgarstjóraefni” er til að gera fólki grein fyrir þeirri trú sem ég hef á Framsókn fyrir þessar kosningar og vil ég vera hluti af þeirri vegferð, hvort sem það væri að leiða flokkinn eða í öðru sæti á lista. Ég tel að í hvoru sætinu sem er geti ég orðið sá leiðtogi innan kerfisins sem að ég tel að borgin og börnin þurfi á að halda. Börnin okkar eiga að fá hásætið næstu fjögur árin og við þurfum öll að taka þátt í að hlúa að þeim.

Hvert þetta mun leiða mig verður að koma í ljós. Ég er allavega ævinlega þakklátur fyrir allan ykkar stuðning hingað til!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka