Flugvélin sést á myndbandsupptökum

Horft yfir Þingvallavatn, þar sem flugvélin fórst á fimmtudag.
Horft yfir Þingvallavatn, þar sem flugvélin fórst á fimmtudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurlandi hefur fengið afhentar myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum sem staðsettar eru í grennd við Þingvallavatn, til að mynda frá eigendum frístundahúsa.

Sumar upptökurnar sýna flugvélina, sem fórst í vatninu á fimmtudag, á flugi.

„Við höfum fengið myndbönd úr öryggismyndavélum þarna í kring. Á einhverjum þeirra sjáum við til vélarinnar,“ segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Frá leit björgunarsveita að flugvélinni, sem fannst seint á föstudagskvöld.
Frá leit björgunarsveita að flugvélinni, sem fannst seint á föstudagskvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Virðist ætla að lenda

Samkvæmt heimildum mbl.is virðist sem svo, á einni upptökunni, að flugvélinni sé stýrt niður að vatninu með vinstribeygju.

Í kjölfarið líti út fyrir að vélinni hafi verið ætlað að hafa snertingu við vatnið, það er að annað hvort koma inn til snertilendingar eða til að lenda á vatninu.

Samkvæmt sömu heimildum mbl.is næst á upptöku það augnablik þegar flugvélin fer ofan í vatnið.

Heimildirnar herma að vatnið hafi verið ísilagt á þessum tíma. Ísinn mun þó hafa verið þunnur.

Samkvæmt mælingum Veðurstofunnar var 10,9 gráða frost á Þingvöllum klukkan níu að morgni þessa fimmtudags.

Klukkan tólf á hádegi, eða um það leyti sem flugvélin er talin hafa farið í vatnið, mældist 7,5 gráða frost.

Fannst á upptöku fyrir klukkan 12

Eigendur sumarhúsa í nágrenni við vatnið voru á föstudag beðnir um að leita í myndbandsupptökum öryggismyndavéla sinna, og tiltók lögregla að einkum væri horft til tímabilsins frá kl. 12 til 14.

Á ofangreindri upptöku fannst þó atvikið ekki fyrr en spólað var aftur fyrir klukkan 12. Samkvæmt tímastimpli hennar mun flugvélin hafa farist á tólfta tímanum.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafi ekki áhrif á vitnisburði

Oddur segir lögregluna ekki munu upplýsa hvað fram komi á þeim upptökum sem henni hafa borist.

„Við ætlum ekki að auglýsa hvað kemur fram á þeim,“ bætir hann við og tekur fram að það sé gert til að hafa ekki áhrif á vitnisburði sem mögulega eigi eftir að koma fram.

Málið sé til rannsóknar og einstakir þættir um atburðarásina verði ekki gefnir út.

Bíða færis

Enn er stefnt að því að ná í lík þeirra fjögurra sem létust í slysinu, síðar í þessari viku þegar veður leyfir, að sögn Odds.

„Það er forgangsmál að ná í líkamsleifar hinna látnu. Það er minni þrýstingur á að ná flakinu upp, en menn vilja samt ná því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert