Íslenskur matreiðslunemi Menntaskólans í Kópavogi hlaut 3. sætið á Ólympíuleikum matreiðslunema í síðustu viku.
Halldór Hafliðason, matreiðsluneminn sem um ræðir, segist hæstánægður með bronsið og stefnir á frekari sigra í framtíðinni, komist hann í kokkalandsliðið.
Halldóri til aðstoðar voru Kristvin Þór Gautason og Dagur Gnýsson. „Þetta var bara geggjað lið, við unnum allir vel saman,“ segir Halldór en þeir voru allir saman á öðru ári í skólanum.
Keppnin fer vanalega fram á Indlandi en hefur síðustu tvö ár verið haldin á netinu í gegnum YouTube, sökum faraldursins. „Þá virkar það í rauninni þannig að við setjum upp þrjár myndavélar, öll 50 löndin,“ segir Halldór en þeir stilltu upp eldhúsaðstöðu niðri í MK.
50 lönd tóku fyrst þátt í forkeppni, sem Halldór flaug í gegnum. „Svo í raun er þessu skipt í tvennt. Maður kemst annaðhvort í topp 10, sem ég komst áfram í, eða topp 20 en þá keppir maður um ellefta til tuttugasta sætið,“ segir Halldór.