„Við erum alsæl og stúlkan, sem ber svip okkar beggja, dafnar vel,“ segir Lilja Björk Guðmundsdóttir í Kaupmannahöfn, nýbökuð móðir. Þau Jóhann Halldór Sigurðsson, kærasti hennar, eignuðust dóttur sem fæddist á þriðjudag í sl. viku. Að barn fæðist er alltaf undur og ævintýri en nú ber svo við að sagan er stærri.
Svo vill til að faðir Jóhanns og móðir Lilju Bjarkar eru samstarfsfólk, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, og Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarkona hans til fjölda ára.
Stúlkan litla fæddist á sjúkrahúsinu í Hvidovre í Kaupmannahöfn rétt eftir miðnætti 1. febrúar. Hún vó 3,8 kg og var 49 cm.
Fjölskyldan litla er nú komin til síns heima á stúdentagörðum á Vesturbrú. Lilja lauk námi í skartgripagerð frá KEA, hönnunarskólanum í Kaupmannahöfn, fyrir nokkrum dögum en Jóhann Halldór er í meistaranámi í alþjóðastjórnmálum við háskólann í Hróarskeldu.
„Við Lilja hittumst fyrst á Flúðum um verslunarmannahelgina 2019. Vissum hvorugt af hinu áður, en ég þekkti fyrir Ingveldi mömmu hennar eftir langa samvinnu hennar og pabba míns,“ segir Jóhann Halldór.
„Við Lilja náðum strax vel saman og fundum fljótlega einhverja strauma. Í lok þessa sumars fór Lilja út til Kaupmannahafnar til að halda sínu námi áfram. Án þess að segja nokkrum skrapp ég út í heimsókn um haustið og þá ákváðum við að verða par. Biðum þó, meðal annars vegna samvinnu foreldra okkar, fram að jólum með að segja nokkrum frá því hvað væri í gangi. Fljótlega eftir áramót 2020 fluttist ég svo út til Lilju. Var rétt mættur þegar skall á með kórónuveiru, svo öllu var skellt í lás. Við urðum því að vera saman öllum stundum næstu misserin og fannst það ekki slæmt. Erum á sömu nótum um ansi margt, meðal annars í pólitík.“
Móðir Jóhanns Halldórs er Anna Ásmundsdóttir, fyrri kona Sigurðar Inga. Faðir Lilju Bjarkar og eiginmaður Ingveldar er Guðmundur Smári Ólafsson. Föðuramman var í Kaupmannahöfn í vikunni til að líta á sonardótturina og móðurfólkið fór út um helgina. Föðurafinn er væntanlegur á svæðið í vikunni.
„Okkur Jóa líður vel hér í Kaupamannahöfn og verðum búsett hér sennilega nokkur ár í viðbót. Ætlum þó að skeppa heim til Íslands um páskana þar sem dóttirin verður skírð. Nafnið er ennþá óákveðið,“ segir Lilja Björk.