„Við reynum að fá sem mest út úr hverri skepnu, til þess erum við í þessu. Það er ekki kappsmál að komast á lista heldur að reyna að hafa eitthvað upp úr búskapnum,“ segir Gréta Brimrún Karlsdóttir, bóndi á Efri-Fitjum í Fitjárdal í Húnaþingi vestra. Bú fjölskyldunnar varð í öðru sæti á lista yfir afurðahæstu sauðfjárbú landsins á nýliðnu ári.
Bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti 1 í Biskupstungum er með mestu meðalafurðirnar, 45,2 kíló kjöts eftir hverja á. Eiríkur hefur um langt árabil skarað fram úr öðrum sauðfjárbændum á þessu sviði. Íslandsmet hans frá 2017, 48,1 kíló, var þó ekki í hættu að þessu sinni. Búið á Efri-Fitjum sótti í sig veðrið á milli ára, var nú með 42,5 kg að meðaltali en á árinu 2020 voru afurðirnar 40,7 kg og búið þá í fjórða sæti. Frjósemin var með ágætum hjá þeim, 2,13 fædd lömb eftir hverja á.
Miðast þessi listi við bú með fleiri en 100 skýrslufærðar ær. Tíu fjáreigendur með 6 til 25 ær hver eru með meiri meðalafurðir en Eiríkur Jónsson. Kristjana og Björgvin í Vorsabæ 1 standa þar efst með 49,4 kíló að meðaltali eftir 10 ær.
Gréta og Gunnar Þorgeirsson, maður hennar, hafa búið á Efri-Fitjum í hátt í þrjá áratugi en þau keyptu jörðina af foreldrum Gunnars. Fyrir þremur árum komu Jóhannes Geir, sonur þeirra, og Stella Dröfn Bjarnadóttir, kona hans, inn í búið með kaupum á helmingi þess.
„Þetta potast áfram. Maður kemur sjálfum sér á óvart á hverju hausti, hugsar alltaf að ekki sé hægt að toppa síðasta ár. Þetta hefur gengið vel,“ segir Gréta.
Hún segir að settar séu á gimbrar sem líklegar eru til að vera mjólkurlagnar og frjósamar. „Þetta gengur út á það að hver kind skili tveimur lömbum eða meira og að þær mjólki vel. Þegar búið er að gera þetta í mörg ár kemur þetta smám saman í alla hjörðina. Lömbin þurfa einnig að vaxa vel og þroskast á þeim stutta tíma sem þau fá,“ segir Gréta.
„Ég hef ekki áhuga á að gera neitt annað en þetta svo það er ekki um annað að ræða,“ segir Jóhannes Geir. Hann viðurkennir að ekki sé bjart yfir sauðfjárbúskapnum um þessar mundir. Afurðaverðið lágt og holskefla hækkana á aðföngum að ríða yfir.
„Verður maður ekki að vera bjartsýnn og vona að þetta gangi yfir? Þá þarf afurðastöðin að gyrða sig í brók, ef menn vilja á annað borð halda sauðfjárbúskap í landinu,“ segir Jóhannes. Hann segir að það auðveldi þeim lífið að geta komið inn í bú foreldra hans og keypt sig smám saman inn í það. Þá hjálpi afurðasemin til og búskapur á góðu sauðfjárræktarsvæði, það bæti afkomuna.