Svör um rannsókn vöggustofa standist ekki

Vöggustofa Torvaldsensfélagsins sem rannsaka á.
Vöggustofa Torvaldsensfélagsins sem rannsaka á. Ljósmynd/Aðsend

Reykjavíkurborg hefur ekki staðið við loforð sín varðandi rannsókn á starfsemi vöggustofa í borginni á árunum 1949-1973. Undirbúningur rannsóknarinnar er nú í kyrrstöðu og hefur lítið sem ekkert gerst frá því að hún var samþykkt fyrir rúmu hálfu ári. Þær afsakanir sem borgarstjórn ber fyrir sig vegna aðgerðarleysisins eru fyrirsláttur og hefur framvindan valdið miklum vonbrigðum. Þetta segir Árni H. Kristjánsson, sagnfræðingur og einn fimmmenninganna sem hefur barist fyrir því að rannsókn verði gerð.

Árni segir afsakanir borgarstjórnar vegna aðgerðarleysis vera tvíþættar. Annars vegar hafi borgarráð ekki samþykkt rannsókn vegna tæknilegra atriða sem varða meðal annars persónuvernd. Hins vegar hafi því verið haldið fram að ríkið muni koma til með að taka þátt í rannsókninni.

Fimmmenningarnir eftir fund með borgarstjóra í júlí. Frá vinstri má …
Fimmmenningarnir eftir fund með borgarstjóra í júlí. Frá vinstri má sjá Árna H. Kristjánsson, Hrafn Jökulsson, Viðar Eggertsson, Tómas V. Albertsson og Fjölnir Geir Bragason heitinn. mbl.is/Unnur Karen

Árni gefur lítið fyrir þau svör og hefur krafist nánari skýringa. Hefur borgin þó verið sein til svara og þær upplýsingar sem hann hefur fengið verið óskýrar.

Hann ásamt Hrafni Jökulssyni, sem er einnig hluti af hópi fimmmenninganna, hafa nú óskað eftir fundi með borgarstjóra vegna málsins.

Engin rannsóknarnefnd verið skipuð

Sjö mánuðir eru liðnir frá því að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti að borgin myndi ráðast í rannsókn á starfsemi vöggustofa sem voru þar starfrækar á árunum 1949-1973. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar fundar borgarstjóra með fimm mönnum sem voru vistaðir á vöggustofum sem börn og hafa vakið athygli á óviðunandi starfsháttum sem þar voru viðhafðir. 

Í lok september funduðu fimmmenningarnir með borgarritara þar sem fram kom að rannsóknarnefnd yrði skipuð um miðjan október og hafði borgarritari þegar fengið forgreiningu hjá Borgarskjalasafni á þeim heimildum sem eru þar til staðar. Að sögn Árna var þá ekkert því til fyrirstöðu að skipun nefndar og rannsókn myndu hefjast, og gekk ferlið vonum framar á þeim tímapunkti. 

Fjórir mánuðir hafa nú liðið frá fundinum og hefur rannsóknarnefnd ekki enn verið skipuð.

„Staðan er í rauninni þannig að það hefur ekkert breyst frá því í júlí í fyrra. Málið er ekkert komið lengra hvað varðar stofnun rannsóknarnefndar,“ segir Árni.

Svörin standist ekki skoðun

Að sögn Árna hafa afsakanir borgarstjórnar í málinu eingöngu verið fyrirslættir. Ólíkt því sem borgin hafi gefið til kynna, fékk hann þær upplýsingar úr forsætisráðuneytinu að málið væri ekki á borði ríkisins. Liggi ábyrgð rannsóknarinnar á borginni enda bar hún ábyrgð á vöggustofunum.

Þá segir hann persónuverndarsjónarmiðin heldur ekki standast skoðun þar sem að til sé fordæmi fyrir rannsóknum á barnaheimilum á vegum vistheimilanefndar. 

„Það eru sömu persónuverndarsjónarmið sem giltu um þá rannsókn og sem mundu gilda um þessa. Þannig ég skil ekki vandamálið,“ segir Árni og bætir við að hægt hefði verið að leita til ríkisins varðandi hvernig þeir báru sig að í því máli.

„Borgin þurfti ekki að finna upp hjólið aftur.“

Vilja koma málinu í höfn fyrir Fjölni

Árni segir þessa framvindu hafa verið mikil vonbrigði en að hann ásamt fleirum séu nú staðráðnir í að keyra þetta mál áfram og koma því í höfn í minningu Fjölnis Geirs Bragasonar, sem lést í desember á síðasta ári. Hann var einn af þeim fimm sem vöktu athygli á málinu í upphafi og börðust fyrir rannsókn þess.

„Nú ætlum við að þrýsta á borgaryfirvöld að aðhafast í málinu. Þrýsta á um skýr svör og engin undanbrögð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert