Taki samtalið um áframhaldandi fjarnám

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, sagði í dag að samtal yrði tekið við háskólana varðandi hvernig fólk, sem byrjaði í fjárnámi og bjóst við því að það yrði þannig í einhvern tíma, muni ljúka námi sínu.

Tilefni ummælana var fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingmanns Framsóknar, í óundirspurnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún spurði ráðherra hvort ekki þurfi að bregðast sérstaklega við því núna, þegar margir hafa meira og minna verið í fjarnámi í tvö ár, og skapa fólki sveigjanleika til að ljúka náminu í fjarnámi.

„Þetta er fólk sem ýmist hefur nýtt Covid-tækifærið til að fara í fjarnám eða verið ýtt í fjarnám. En það er undarleg staða þegar nemendur sem hafa jafnvel fengið þær upplýsingar að ekki sé hægt að stunda fjarnám í tiltekinni námsgrein hafa svo ekki fengið að mæta í skólann þó að þeir séu búnir að leigja sérstaklega húsnæði á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Líneik.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar. mbl.is/Arnþór

Áslaug sagði það skýrt kveðið á um í stjórnarsáttmálanum að gera eigi átak í netvæðingu náms og aðgengi að stafrænu háskólanámi á Íslandi, sem eykur aðgengi að menntun óháð búsetu og aðstæðum. „Ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu að taka það samtal upp við háskólann hvort og hvernig við sjáum þetta þróast,“ sagði Áslaug.

Gætu sérstakir hópar átt rétt á sveigjanleika?

Áslaug sagði þá hugmynd Líneikar um að sérstakir hópar gætu átt rétt á tilteknum sveigjanlega í námi, svo sem vegna búsetu, fjölskylduaðstæðna eða ástundunar afreksíþrótta, eitthvað sem ætti að skoða „og spyrja kannski sérstaklega háskólana hvort það sé eitthvað sem þeir hafi verið að skoða eða séu tilbúnir til að skoða.“

Þá sagði Áslaug að það hljóti að vera markmið háskólanna að auka valfrelsi nemenda. „Ráðuneytið á að hjálpa til við þá þróun og ýta undir hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert