Fyrrverandi stjórnendur Eflingar fengu ekki niðurstöður vinnustaðagreiningar ráðgjafar- og sálfræðistofunnar Lífs og sálar í afhentar þar sem um er að ræða trúnaðargögn. Þetta segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is. Þá hafi úttektin ekki beinst að fyrrverandi stjórnendum heldur vinnustaðnum sjálfum, og því var engin þörf á því að fá þeirra viðbrögð við niðurstöðunum.
„Þar sem þau voru ekki fókuspunktur úttektar þá sáum við enga ástæðu til að senda þeim þetta og fá þeirra viðbrögð. Þau eru ekki hluti af úttektinni og spila enga rullu. Við þurfum ekkert að fá þeirra viðbrögð. Þetta var bara til að vinna hérna innanhúss. Samtal við þau um niðurstöðurnar gerir ekkert fyrir okkar vinnu hérna inni,“ segir Linda í samtali við mbl.is
Sólveig Anna Jónsdóttir, frambjóðandi til formanns Eflingar, og stuðningsfólk hennar hefur gagnrýnt að Sólveig hafi ekki fengið niðurstöðurnar í hendurnar og fengið tækifæri til að bregðast við þeim ásökunum sem koma þar fram. Þá hefur einnig verið gagnrýnt að hún og Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, hafi ekki verið kölluð í viðtal vegna vinnustaðagreiningarinnar.
Í niðurstöðunum kemur fram þau hafi brugðist skyldum sínum sem stjórnendur. Notaðar hafi verið ógagnlegar aðferðir til að mæta kvörtunum og vanlíðan starfsfólks. Hafi það aukið á vandann og endað með algjöru rofi á trausti. Nokkrir töldu að Sólveig og Viðar hefðu lagt einhverja á vinnustaðnum í einelti og beitt andlegu ofbeldi með misbeitingu valds og stöðu. Þá lýstu nokkrar konur kvenfyrirlitningu og kynbundinni áreitni af hálfu Viðars.
Linda segir það aldrei hafa staðið til að birta alla skýrsluna opinberlega en upplýsingum úr henni hafi verið lekið í fjölmiðla og því hafi þurft að bregðast við með ákveðinni upplýsingagjöf.
„Skjalið sem við fengum frá Líf og sál er trúnaðarskjal, skýrslan sjálf. Svo koma þau og kynna þetta á glærum fyrir 50 starfsmenn og segja okkur að við getum alveg, ef við erum spurð, sagt almennt frá niðurstöðunum. Því sem kemur fram í inngangi og niðurlagi og svona, og það gerðum við,“ útskýrir Linda.
Vinnustaðagreining Líf og sál hófst í byrjun nóvember á síðasta ári og lá þá fyrir að niðurstöðum yrði skilað í lok janúar. Allir sem störfuðu hjá Eflingu á þeim tíma voru teknir í viðtöl, en að sögn Lindu hættu einhverjir störfum meðan á úttektinni stóð og urðu að fyrrverandi starfsmönnum, eftir að hafa farið í viðtal. Sólveig og Viðar hurfu hins vegar frá sínum störfum fyrir félagið áður en úttektin hófst. Þess vegna voru þau ekki boðuð í viðtöl eða var greint frá því að til stæði að ráðast í úttekt á vinnustaðnum. Það hefði því einnig verið óeðlilegt ef þau hefðu fengið skýrsluna í hendurnar.
Ein þeirra sem hefur gagnrýnt þetta er Birna Gunnarsdóttir, systir Sólveigar, og birti hún grein í Kjarnanum í gær þar sem hún segir skýrsluna eina alvarlegustu aðförina að mannorði Sólveigar og persónu. Segir hún núverandi og fyrrverandi starfsfólk hafa verið spurt út í persónuleika og starfshætti.
„Enn hefur Sólveig Anna ekki fengið að sjá skýrsluna né það efni sem sent var fjölmiðlum. Henni var ekki gerð grein fyrir að til stæði að gera opinberar niðurstöður skýrslu þar sem hún væri til rannsóknar og hefur algjörlega verið svipt tækifærum til að bregðast við mjög alvarlegum og nafnlausum ásökunum. Um siðferðisvitund þeirra sem þannig fara fram þarf ekki að fjölyrða,” skrifar Birna í greininni. Segir hún framkomu Eflingar og sálfræðistofunnar Líf og sál forkastanlega.
Linda segir að málið virðist byggt á misskilningi. „Í fyrsta lagi væri ég að brjóta trúnað með að senda skýrsluna áfram, en það sem er kannski misskilningurinn í þessu öllu saman, sem þau eru að byggja á, að þessi úttekt hafi miðað að þeim.“
Væri það raunin myndi hún vel skilja reiðina. „Ef það væri einhver úttekt úti í bæ þar sem þau væru fókuspunkturinn, þá væri eðlilegt að þau væru látin vita af þeirri úttekt og fengu sendar niðurstöður til að bregðast við þeim. Ég myndi skilja allt þetta ef það væri útgangspunkturinn, en það var ekki þannig á neinum tímapunkti. Í viðtölunum er aldrei spurt um þau persónulega. Þau eru ekki til rannsóknar. Vinnustaðurinn er bara til rannsóknar og fólk er spurt mjög opinna spurninga um líðan og stjórnun, eins og er gert í öllum vinnustaðakönnunum. Svo er bara niðurstaðan ofboðslega afgerandi í áttina til þeirra. Þess vegna verður það efnið sem ég þarf að vinna með sem framkvæmdastjóri,“ útskýrir hún.
„Ég þarf hugsa, hvernig get ég byggt upp vinnustað út frá þessu, hvernig getum við lært af þessu? Það er það sem við ætlum að nota þetta í. Pólitíski tilgangurinn hérna inni á skrifstofunni er enginn, annar en að byggja upp gott starf.“
Þá segir Linda að ef fyrri stjórnendur taki aftur við félaginu, geti skýrslan nýst þeim til að verða að betri stjórnendum.
Hún ítrekar að algjörlega óháður aðili hafi verið fenginn til að gera úttektina og þetta sé niðurstaðan. Enginn hafi vitað það í upphafi hver niðurstaðan yrði en það hafi verið fyrirfram ákveðið að skýrslan yrði afhent í lok janúar, áður en það lá fyrir að kosið yrði til stjórnar á þessum tíma.