Af hverju tók Ómíkron yfir?

Spurt var um Ómíkron.
Spurt var um Ómíkron. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Besta leiðin til að meta mun á þróunarlegri hæfni veira, er þegar tvær eða fleiri gerðir keppa og allar ytri aðstæður eru eins. Ef ein gerðin nær stærri og stærri hlutdeild, er líklegast að það sé vegna þess að hún sé hæfari.

Þetta hefur gerst að minnsta kosti tvisvar sinnum í Covid-faraldrinum, eins og segir í nýju svari á vísindavef Háskóla Íslands.

Fyrst árið 2021 þegar Delta-afbrigðið varð algengasta gerðin og nú þegar Ómíkron-afbrigðið er að ná yfirhöndinni.

Spurt var: Af hverju tók Ómíkron yfir önnur afbrigði veirunnar og hætta þau þá að smita?

Hæfni Ómíkron augljós

Í tilfelli Delta hafi sést að gerðin reis í öllum ríkjum Bandaríkjanna á svipaðan hátt, og útrýmdi öðrum gerðum. Sama hafi sést í tilfelli Ómíkron, nema hvað hraðinn var jafnvel meiri.

Bent er á að það sé munur á hæfni, sem tengist erfðum, sem sé hráefnið fyrir náttúrulegt val.

„Það er þróunarkrafturinn sem veldur því að lífverur lagast að umhverfi sínu, í víðasta skilningi, og viðheldur einnig þeim eiginleikum sem eru lífverum nauðsynlegir. Hæfni er ekki bara tengd innri þáttum lífveru, hún er einnig háð umhverfinu. Hlutfallslega meiri hæfni Ómíkron gagnvart Delta er augljós í umhverfinu sem nú blasir við,“ segir í svarinu.

Gætu snúið vörn í sókn

„En vera kann að við aðrar aðstæður væri hæfnimunurinn á milli þeirra minni, Delta hæfari, eða jafnvel eitthvað þriðja afbrigði hæfast (til dæmis Lambda eða Mý). Þess vegna er ekki loku fyrir það skotið, ef Ómíkron útrýmir ekki hinum gerðunum, að síðar muni eitthvert þeirra (eða afkomandi þeirra) ná að snúa vörn í sókn. Slík upprisa frá (næstum) dauðum er möguleg, svo lengi sem smittíðni helst há, og Delta og aðrar gerðir viðhaldast á heimsvísu.“

Vísað er til þess að kynlaus æxlun veira þýði að þær skiptist ekki á genum, og því verði afbrigðin að keppa innbyrðis.

„Mestu máli skiptir þróunarleg hæfni veiranna, það er að segja hversu vel standa þær sig í lífsbaráttunni? Hæfni lífvera er margslungin, jafnvel meðal hinna tiltölulega einföldu veira. Sem dæmi getur verið um að ræða aukna getu til fjölgunar (fleiri veiruagnir myndaðar á dag), aukna smithæfni (til dæmis að smita fleiri frumur eða vissa aldurshópa betur), breytt ytra byrði þannig að mótefni bindist síður, betri leiðir til að snúa á aðra þætti ónæmiskerfisins, og svo mætti lengi telja. Allir þessir þættir leggja lóð sitt á vogarskálina, en síðan fer það eftir vægi þeirra hvernig þeir leggjast saman eða margfaldast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert