Alþingi samþykkti milljarða í styrki

Alþingi samþykkti í dag að veita veitingastöðum styrki vegna takmarkana …
Alþingi samþykkti í dag að veita veitingastöðum styrki vegna takmarkana í faraldrinum. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Veitingastaðir sem sætt hafa takmörkunum og orðið fyrir minnst 20% tekjufalli á tímabilinu desember 2021 til og með mars 2022 munu hljóta styrki frá ríkissjóði samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra, sem Alþingi samþykkti á þriðja tímanum í dag. 

Greiddu 33 þingmenn atkvæði með frumvarpinu – kostnaður við styrkina er metinn á kringum 1,5 milljarða en þó ekki hærri en 3 milljarðar. Veitingafólk hefur um nokkurt skeið gagnrýnt stjórnvöld fyrir úrræðaleysi en fjármálaráðherra hefur sagt að komið yrði til móts við hópinn.

Saknaði ráðherra við atkvæðagreiðslu

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi þá ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir að hafa ekki verið viðstaddir atkvæðagreiðsluna en allir viðstaddir þingmenn studdu frumvarpið.

„Herra forseti, það er eiginlega bara ekki hægt að sleppa því að koma hérna upp og vekja athygli á því að það er verð að samþykkja stjórnarfrumvarp, rekstarstuðning við fyrirtæki. Og það er ekki einn einasti ráðherra sem mætir til að greiða atkvæði um stjórnarfrumvarpið,“ sagði Logi.

Þá var nokkuð um frammíköll úr þingsal og sagði Logi þá:

„Og samkvæmt því sem ég heyri hér utan úr sal þá hirðir meirihlutinn ekki einu sinni um það að mæta þannig til leiks að þau tryggi að málin séu samþykkt. Og þau reiða sig á stjórnarandstöðuna,“ sagði Logi, en stjórnarandstaðan studdi málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka