Borgin muni standa við loforð sín

Fjórmenningarnir sem hafa verið í forsvari fyrir þá sem voru …
Fjórmenningarnir sem hafa verið í forsvari fyrir þá sem voru vistaðir á vöggustofur sem börn hafa verið boðaðir á fund á fimmtudaginn til að ræða rannsóknina. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Þorsteinn Gunnarsson borgarritari segir að staðið verði við loforð sem borgarstjóri gaf í júlí á síðasta ári um að farið verði í rannsókn á starfsemi vöggustofa í borginni á árunum 1949 til 1973. Fulltrúar borgarinnar munu funda með fulltrúum forsætisráðuneytinu á morgun vegna málsins en þá muni betur koma í ljós hvernig rannsókninni verði hagað.

Hann segir borgina hafa beðið eftir svörum ráðuneytisins í nokkrar vikur.

Á fimmtudaginn hefur svo verið boðaður fundur með þeim fjórum mönnum sem hafa verið í forsvari fyrir þá sem voru vistaðir á vöggustofum sem börn til að fara yfir stöðu málsins. Fjórmenningarnir eru þeir Árni H. Kristjánsson, Viðar Eggertsson, Hrafn Jökulsson og Tóm­as V. Al­berts­son.

„Okkur er mjög mikið í mun að koma þessu í þann farveg sem þetta á að fara, að það verði gerð rannsókn á starfsemi vöggustofa eins og borgarráð samþykkti. En það þarf að gæta að lögfræðilegum þáttum sem skipta máli. Þetta er umfangsmikið og stórt mál,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Lögfræðileg álitamál tafið

Skipa átti nefnd fyrir miðjan október á síðasta ári sem átti að fara fyrir rannsókninni. Enn hefur ekkert orðið úr því.

Að sögn Þorsteins má rekja tafir á skipun nefndarinnar til ýmissa þátta, meðal annars vegna lögfræðilegra álitamála. Þá hefur einnig verið beðið eftir svörum frá forsætisráðuneytinu undanfarnar vikur sem hefur verið að skoða þessi mál. 

Hann segir þó tillögu tilbúna til að leggja fyrir borgarráð um ákveðna málsmeðferð þar sem kveðið er á um hvernig haga skuli rannsókninni, verði niðurstaðan sú að borgin skipi rannsóknarnefndina í stað forsætisráðuneytisins.

Árni H. Kristjánsson, einn af þeim sem hefur barist fyrir rannsókn vöggustofa, sagði í gær í samtali við mbl.is að fordæmi fyrir rannsóknum á barnaheimilum á vegum vistheimilanefndar væru til staðar. Ætti hann því erfitt með að skilja hvernig álitamál á borð við persónuverndarsjónarmið væru að tefja undirbúning rannsóknarinnar með slíkum hætti. Borgin þyrfti ekki að finna upp hjólið.

Að sögn Þorsteins hefur ríkið rýmri lagaheimildir en borgin um rannsóknarnefndir sem snýr m.a. að persónuverndar- og upplýsingamálum. Liggi því fyrir að borgin þurfi aðkomu löggjafans í því að rýmka lagaheimildir fyrir sérstaka rannsóknanefnd á vegum Reykjavíkurborgar, verði sú leið farin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert