Tolli varð fyrir sterkri andlegri reynslu þegar hann var í hlíðum Aconcagua í Argentínu. Hann segir það hafa aukið mjög á erfiði ferðarinnar. Bæði að takast á við kulda og líkamlegt erfiði ásamt því að fá öflugar upplifanir úr sinni fortíð.
Ekki alls fyrir löngu fannst múmía af barni sem hafi verið grafið lifandi til að friða anda fjallsins. Tolli segir að í ljós hafi komið að barnið var átta eða níu ára. Þessi tiltekna múmía fannst á fjallinu sem nefnt er Pýramídi og er næsti nágranni Aconcagua. Það er kannski huggun harmi gegn að rannsóknir á múmíunni leiddu í ljós að barnið hafði fengið jurtir til að svæfa það áður en það var lagt lifandi í gröfina.
Tolli segir fjöllin spila afar stórt hlutverk í heimi innfæddra og vera mikilvægur liður í trúarathöfnum og menningararfi. Síðar hafi komið í ljós fleiri múmíur víðar í fjallgarðinum. Tolli segir frá reynslu sinni úr ferðinni á Aconcagua í Dagmálaþætti dagsins.