Stefnt var að því að fyrsti hluti búnaðar þess sem setja þarf upp við Ölfusvatnsvík kæmi á vettvang í kvöld. Færð á vettvangi hefur hins vegar ekki verið góð og hefur því öllum flutningum verið frestað til morguns. Þá verður einnig ruddur slóði að aðstöðuplani. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef lögreglunnar á Suðurlandi.
Segir í tilkynningunni að lögregluvakt verði á vettvangi frá því uppsetning hefst og þar til aðgerðum er lokið.
Veðurspá gerir ráð fyrir norðan blæstri í fyrramálið en hægari með kvöldinu og hæglætisveðri á fimmtudag og fram á föstudag en hörku frosti.
„Í lok dags á morgun þarf allur búnaður að vera kominn á staðinn og uppsetningu þarf að ljúka fyrir fimmtudag. Ísröst er byrjuð að myndast með bökkum vatnsins og þarf að finna hentugan stað til „sjósetningar“ á prömmum sem notaðir verða úti á vatninu,“ segir í tilkynningunni.
Á búnaðarlista fyrir utan sérstakan útbúnað til köfunar er m.a. eftirfarandi:
Fram kemur í tilkynningunni að fundað hafi verið með sérfræðingum í umhverfismálum og Brunavörnum Árnessýslu vegna hættu á mengun við aðgerðirnar. Einnig var farið yfir sameiginlega rannsóknaráætlun lögreglu og RNSA á flakinu og nauðsynlegar aðgerðir tímasettar í ferlinu með stjórnendum kafara.
„Mögulegt er að umfang aðgerðanna leiði til tjóns á lággróðri og annarra ummerkja á bakka vatnsins einkum þar sem þungir prammar verða settir út. Lagfæringar á því þurfa að bíða vors en reynt verður af fremsta megni að komast hjá því að eftir verði nokkur ummerki um aðgerðirnar,“ segir í tilkynningunni.